Raddinnsláttur (e. Voice typing)

Salvör Gissurardóttir 2020

Mikil þróun er núna varðandi talgreiningu (e. speech recognition) og þróaður hefur verið íslenskur talgreinir (sjá https://tal.ru.is ) sem tekinn var í notkun á Alþingi Íslands árið 2019 til að skrá sjálfkrafa ræður alþingismanna um leið og þeir flytja þær úr ræðustól. Það er opinn hugbúnaður sem líklegt er að verði aðgengilegur í ýmsum tölvutólum í framtíðinni.

Eins og er þá er hægt að prófa íslenskan talgreini á tal.ru.is en Google hefur einnig þróað talgreini sem er innbyggður í mörg Google veftól svo sem Google Keep og Google Docs. Talgreinir Google getur greint mjög mörg tungumál og hægt að stilla íslensku ef það er ekki sjálfgefið. Það kallast raddinnsláttur (voice typing) að nota þetta tól og tala við tölvu sem breytir talinu í texta.

Google Docs er veflægt ritvinnslukerfi frá Google. Það er með íslensku viðmóti og notandinn getur notað íslensku í raddinnslátti en einnig stillt auðveldlega á önnur tungumál.

Skjáupptaka sem sýnir raddinnslátt í Google Docs ritvinnslu. Slóð beint á upptökuna er hérna:
https://notendur.hi.is/~salvor/podcast/raddinnslattur.mp4

Google Keep er tól frá Google, nokkurs konar veflæg glósubók til að geyma minnisatriði og glósur á ýmsu formi (myndir, texti, teikningar, tal o.fl.) á lokuðu vefsvæði. Þú getur notað Google Keep bæði í venjulegum tölvum, spjaldtölvum og símum. Það eru sérstakt app fáanlegt með síma og spjaldtölvuútgáfunni og þar eru fleiri möguleikar, meðal annars möguleiki að nota raddinnslátt til að taka upp hljóðglósur.

Talaðu við tölvuna með Google Keep eða Google Docs á mörgum tungumálum.

Þú verður að vera innskráður á Google reikning og hafa Keep appið uppsett til að nota þetta tól. Þá getur þú smellt á mynd af hljóðnema og byrjað að tala, segja t.d. eina eða tvær setningar. Upptaka hættir þegar þú hættir að tala. Tólið reynir að greina það sem þú sagðir. Það er hægt að stilla á íslensku ef þú ert með Android síma (það virkaði þó ekkert vel hjá mér).