Salvör Gissurardóttir 2020
Hlaðvörp (e. podcasts) eru hljóðskrár sem eru settar fram í tímaröð, nokkurs konar hljóðblogg. Það er sams konar veftækni á bak við hlaðvörp og blogg. Hlaðvörp verða að vera rétt sett upp, hafa svokölluð RSS feed. Það eru textaskjöl sem tölvur geta lesið og eru send sjálfkrafa til hlaðvarpsveitna.
Hér er skýringarmynd sem sýnir hvernig RRS feed virka. Sá sem gerir hlaðvarp býr til RSS feed sem uppfærir þegar hann setur nýtt efni á vefinn. Það er búið til sjálfkrafa í flestum blogg- og hlaðvarpskerfum. Uppfærslur á RSS feed eru svo sendar sjálfkrafa á hlaðvarpsveitur. Hlustendur sem gerast notendur á einhverri hlaðvarpsveitu geta búið sér til safn af þeim RRS straumum sem þeir vilja vera áskrifendur að og stundum stillt þannig að nýtt efni frá þeim sem þeir eru áskrifendur að hlaðist sjálfkrafa niður í þeirra tæki. Áskrifendur sjá lítið af tæknihliðinni og þeirra umhverfi er gjarnan myndrænt og einfalt enda eru flestir að hlusta á podköst á tækjum með litlum skjám eins og símunum sínum.
Hlaðvarpsveitur eru vefgáttir sem vakta og safna saman á einn stað RSS straumum þeirra sem búa til hlaðvörp. Hlustendur geta þar gerst áskrifendur og fylgst með og hlustað án þess að heimsækja sérstaka vefi. Hlaðvarpsveitur eru oft með sérstök öpp sem hlustendur geta sett upp í snjalltækjum og símum og þar sem er auðvelt að gerast áskrifandi að ákveðnum hlaðvörpum.
Hlaðvarpsveitur eru meðal annars Apple Podcasts https://podcasts.apple.com/ sem hét áður iTunes og Google Podcasts
Google Podcasts er með sérstakt app fyrir Android stýrikerfið en það er hægt að leita og hlusta á podköst á vefnum. Apple Podcasts er með app fyrir iOs og MacOs stýrikerfi en hægt er að hlusta á einstök podköst á vefnum t.d. er slóðin á podcast fyrir þáttinn Lestin svona: https://podcasts.apple.com/is/podcast/lestin/id1148576648
Soundcloud er veita fyrir tónlist og tal og þar geta notendur sett upp eigin hlaðvörp. Þar er boðið upp á ókeypis notandaaðgang til að setja inn efni allt að 180 mín. Til að sjá RSS feed á podkasti í Soundcloud þá þarf að fara í settings og þar undir í content.
Mikil þróun er varðandi hlaðvörp núna og tónlistarveitan Spotify leggur núna áherslu á að búa til aðlaðandi umhverfi fyrir þá sem vilja hlusta á hlaðvörp.
Leitarvél fyrir hlaðvörp er https://www.listennotes.com/