Gagnvirkar sögur og leikbækur

Salvör Gissurardóttir tók saman í febrúar 2018.  Uppfært 2023

Hvernig breytist frásagnarhefð, frásagnarmöguleikar,  lestur og sögugerð með tilkomu nýrra tækja og nýrrar tækni? Á örfáum árum hafa snjalltæki orðið vinsæl, þessi tæki voru fyrst kölluð lesbretti eða lesvélar en þau geta margt annað en eingöngu hjálpað okkur við lestur.

Þróunin hefur orðið sú að færanlegu litlu tækin eins og símar og spjaldtölvur eru orðin öflugar tölvur og geta verið fjarstýringar sem við notum í umhverfi okkar og geta líka  lýst upp heim okkar og greint hvað er í honum og skráð og unnið með gögn og miðla á ýmsu formi. 

Með aðstoð tækjanna getum við  líka búið til ævintýraheima sem við getum ferðast í , bæði á sýndarferðalagi inn í netheimum  eins og Minecraft leikheiminum en líka með að ferðast um raunverulega heiminn eins og með Pokemon Go.

Vissulega eru bækur á prentuðu formi ennþá vinsælar og útbreiddar en þó vitum öll að við erum á þröskuldi nýrra tíma, tíma þar sem stafræn tækni tekur við og er beint framhald af tækni og sögugerð prentaldar.

Hér er grein Interactive fiction in the classroom. eftir Matthew Farber sem fjallar um gagnvirka sögugerð í skólastofunni.

Rafbækur og hljóðbækur verða betri og betri

Það eru ennþá bókasöfn við skóla, það er ennþá stór hluti af námsreynslu að lesa prentaðar bækur. En smám saman verða rafbækur þægilegri, hentugri og ódýrari og ryðja burt hinum prentuðu bókum. 

Við sjáum töluverða útgáfu af rafbókum  og bæklingum bæði á pdf formi og epub formi og nýjustu vafrar geta lesið beint slíkt efni.  Epub formið er nýrra og betur lagað að umhverfi snjalltækjanna, það er í raun ekki annað en þjöppuð vefsíða og auðvelt að setja upp í því rafbók sem vel út og er auðlesanlegt í síma, spjaldtölvu og borðtölvu.

það hafa komið til sögunnar nýir möguleikar m.a. á að lesa upphátt texta sem er á stafrænu formi . Ég bendi sérstaklega á verkfæri frá Immersive Reader (Aðgengilegt lestrarumhverfi) sem getur lesið beint af skjánum í Edge vafra en virkar einnig vel í ýmsum öðrum Microsoft hugbúnaði svo sem Minecraft Education.

Hægt er að setja inn viðbót (e. extension) fyrir Chrome vafrann til að   geta lesið upphátt á ýmsum tungumálum m.a. íslensku. Þessi viðbót heitir Read Aloud: A Text to Speech Voice Reader

Þessi möguleiki að velja að lesa upphátt stafrænan texta hjálpar mörgum svo sem þeim sem eru sjóndaprir eða eiga erfitt með lestur en getur einnig gagnast vel þeim sem þurfa að lesa og nema texta á öðru máli. Það eru til mörg slík tól sem geta lesið bækur sem fylgja staðli.

Það hafa einnig með nýrri tækni opnast möguleikar möguleikar á hljóðbókum þar sem sá sem hlustar þarf eingöngu að hafa lítinn snjallsíma og getur hlustað á hljóðbók sem streymt er beint af netinu eða hlaðið niður hljóðskrám (oft á mp3 formi) til að hlusta á án þess að vera nettengdur.  Safnið lit2go  er dæmi um safn af þannig hljóðskrám og Hljóðbókasafnið íslenska býður notendum sínum annað hvort að hlaða niður bókum eða streyma þeim beint af netinu með sérstöku appi.

Við sjáum að tæknin hefur gert miklu einfaldara fyrir okkur að lesa hefðbundnar  bækur,  bæði að fletta í gegnum þær frá blaðsíðu til blaðsíðu en einnig að hlusta á þær og ekki síst að fletta upp eins og núna er hægt að tengja rafbók við orðabók þannig að lesandi getur smellt á orð sem hann skilur ekki.

En þessi notkun tækninnar að flytja bækur prentaldar inn í netumhverfið þar sem einfaldara og þægilegra er að lesa þær eða hlusta á þær  er þannig að við erum að nota tæknina til að gera það sama og áður, engin eðlisbreyting hefur orðið á  inntaki og hvernig við vinnum með það.

Verkefni fyrir þig

  1. Prófaðu að  láta lesa upphátt  í vafra með aðstoð Umlykjandi lesara
  2. Getur þú hlaðið niður rafbók (epub) og hljóðbók) eða streymt beint af net
  3. Skoðaðu með hlutsjón af SAMR og TPACK líkönum á hvaða stigi tækniþróunar sú notkun að breyta prentaðri bók í rafbók er
  4. Getur þú búið til rafbók (skjal á .epub formi)
  5. Getur þú búið til hljóðskrá (skrá á .mp3 formi)

Mannkynið hefur alltaf unnið með sögur og ævintýri og þannig efni var til löngu áður en prentöld gekk í garð.

Gagnvirkar bækur (leikbækur)

Hér fyrir ofan var fjallað um rafbækur og margmiðlun og hve miklar framfarir eru varðandi hljóð. Það verður innbyggt í vafra í nánustu framtíð að geta lesið upp texta með eðlilegri röddu og snúið texta á ýmis tungumál. Við getum einnig spilað myndbönd og stuttmyndir inn í rafbókum og innfellt forrit/forritsbúta og ýmis konar virkni þannig að „lesandinn“ taki virkari þátt, t.d. svari spurningum eða velji spilun/miðlunarmáta.

Við getum einnig búið til sögur sem eru ekki línulegar heldur þar sem þar sem „lesandinn“ velur sitt eigið ævintýr, velur t.d. hvaða persóna í sögunni hann er og tekur ákvarðanir í sögunni. Það er hægt að búa slíkt til í flóknum leikjagerðarverkfærum en við getum einnig búið til slík gagnvirk ævintýri í glærugerðarverkfærum,  spurninga og prófakerfum (t.d. Google Forms) og í bókagerðarverkfærum eins og Book Creator. Á vefnum gamebooks.org er ýmislegt fróðlegt efni um gagnvirkar sögur og leikbækur.

Dæmi um leikbækur og gagnvirkar sögur
Margir tölvuleikir t.d. hugbreytileikir á vefgáttinni  GamesforChange eru á mörkum þess að vera tölvuleikur eða bók, eru eins konar  gagnvirkar bækur. Það má t.d. nefna leikinn/leikbókina Papers, please!  Hér fyrir neðan er kynning á þeim leik.

Papers, please!

skjámynd úr Papers, please!

Papers, please er vefævintýri/leikbók þar sem spilarinn er  staddur í  ríki þar sem stríði er nýlokið og mikið af fólki vill fara yfir landamæri  og spilarinn fær boð um að fara með fjölskyldu sína og gerast landamæravörður og hlutverk hans er að finna út hverjir mega fara yfir landamærin.